Samstarf í kennslu um vörustjórnun og sjálfbæra þróun í virðiskeðju sjávar og eldisafurða

Hvatinn að því að beina athygli nemenda í Umhverfis og auðlindafræði að fyrirtæki í fiskiðnaði á haustönn 2012 er verkefnið InTerAct sem er stutt af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni og miðar að því að efla samstarf háskóla við fyrirtæki á sviði sjávartengdrar starfsemi og bæta ímynd greinarinnar sem áhugverður starfsvettvangur fyrir ungt menntað fólk.

InTerAct verkefnið styður við þróun á   AQFood (www.aqfood.org) nýju norrænu meistaranámi, en framlag HÍ í kjarna námsins á haustmisseri er fjarkennsla um „Stjórnun virðiskeðju eldis og sjávarafurða, umhverfi og auðlindir“. Farin var sú leið að nýta fyrirlestra frá HÍ sem féllu að náminu, en það voru námskeiðin Þættir í umhverfis og auðlindafræði sem Brynhildur Davíðsdóttir kennir og Vörustjórnun 2, sem Gunnar Stefánsson við IVT kennir, en bæði námskeiðin eru kennd á ensku. Fyrirlestrar á haustmisseri 2012 voru teknir upp í kennslustundum með nemendum við HÍ með Adobe Connect fjarfundakennslubúnaði og námsefninu var síðan miðlað til nemenda við UMB og DTU í gegnum Fronter kennsluvef UMB.  Fjarnemum var boðið uppá vikulega fundi með tengiliðum námskeiðsins á haustönn og verkefni voru lögð fyrir á sama hátt og við HÍ.

Lögð var áhersla á að verkefni námskeiðsins fjölluðu um vandamál og úrlausnir fyrir fyrirtæki í fiskiðnaði eða fiskeldi.  Nemendur við DTU og UMB unnu að  hópaverkefnum eins og nemendur á Íslandi þar sem þau settu fram tillögur að markmiðum um sjálfbæra þróun fyrir eldisfyrirtæki í Danmörku og eldisstöð hjá UMB í Noregi. Kynningar á hópverkefnum nemenda fóru síðan fram á fjarfundi með leiðbeinendum frá DTU, UMB og Háskóla Íslands.

Christos Dimitriou frá Grikklandi nemandi í AQFood náminu og Michaela Rustemeyer frá Þýskalandi skiptinemi við DTU að kynna verkefnið sitt um sjálfbæra þróun fyrir fiskeldisfyrirtæki í Danmörku

AQFood er vistað hjá Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild HÍ, en áhersla er á umhverfis og auðlindafræði og tengingu við matvælafræði til að efla þverfræðilegan grunn virðiskeðjunnar og tryggja öryggi og gæði eldis- og sjávarafurða. Nemendur dvelja eitt ár í senn við mismunandi skóla og útskrifast með tvöfalda meistaragráðu frá viðkomandi norrænum háskólum (HÍ, DTU, NTNU, UMB og SLU).

Nánari upplýsingar veita eftirfarandi:

Guðrún Ólafsdóttir,  go@hi.is Rannsóknarhópur í hagnýtum vöruferlum, VON, HÍ  www.ascs.is

Brynhildur Davíðsdóttir, bdavids@hi.is  Umhverfis og auðlindafræði, VON, HÍ

Gunnar Stefánsson, gunste@hi.is  Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræði, VON, HÍ